Leiksýning af bestu gerð

DramaÉg er blessunarlega laus við stjórnmálapælingar og það er sáraeinfalt að kaffæra mér í pólitískri umræðu, jafnvel þótt ég fari með hárrétt mál.  En ég þekki gott leikrit þegar ég sé það.

 

Nýtt stykki sem sett var upp fyrir stuttu af Leikfélagi Framsóknar var “Riddarinn Ljósi”.  Áhrifamikið verk fullt af sviptingum og drama. 

 

Eftir stutta kynningu á uppáhalds persónum áhorfanda, Konunginum, prestunum, vondu norninni, prinsessunni og hirðsveininum komum við að langri baráttu Konungsriddarana við vondu nornina um yfirráð Ríkisins.  Rétt fyrir hlé er átakamikill kafli sviptinga og spillingar.  Tilraun til þess að svíkja vondu nornina mistekst og Prestarnir hrekja hirðsveininn úr ríkinu.  Konungurinn er einnig hrakinn frá völdum og Prestarnir saka Vondu nornina um ógeðfelda hluti.  Prinsessan grætur og þorir ekki að taka við ríkinu og áhorfendur sitja eftir í geðshræringu. 

Það voru ansi margir áhorfendurnir sem fóru út að reykja í hléinu, og einhverjir fóru reiðir heim.. 

Eftir hlé dró heldur betur til tíðinda.  Áhorfandinn fullur reiði og ótta gagnvart Prestunum og Vondu Norninni fær að sjá ungan prins ljósan litum sem boðar nýja hugsjón.  Á undraskömmum tíma breiðist sagan af komu hans um gjörvalt ríkið.  Prestarnir kalla innkomu hans óvinveitta yfirtöku og óttast um völd sín.  Ungi riddarinn stormar um sviðið og fellir hvern Prestinn á fætur öðrum og áhorfendur tárast af gleði.  Boðað er til kosninga sem verða vægast sagt tvísýnar.  Riddarinn ljósi fær ekki konungssætið, og taugatrektir áhorfendur sitja spyrjandi með tárin í augunum “Hvað verður um Ríkið?”.   En upp kemst um “mistök” Prestana í talningu og enn rís riddarinn ljósi og í þetta sinn áhorfendur með.  Boðun nýrra tíma er hafin og vonin hefur tekið öll völd.  Í lokalaginu koma allir á svið og fagna með Riddaranum ljósa.  Einnig þeir sem afhroð hlutu, því auðvitað fagna allir.  Ríkið er sko alls ekki dautt. 

 

Eins og ég sagði áður, þá er þetta gott leikrit og sagan vel skrifuð.  Leikmynd er góð og lýsing.  Leikendur allir hafa góð tök á texta og líkamsburðum.  Frumraun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á sviði er til fyrirmyndar.  Hann matreiðir “sannleikann” í takt við það sem áhorfandinn vill heyra, og nær á köflum svo vel til áhorfenda að þeir eins og svífi með inn í ævintýrið.

Páll Magnússon sem sonur nornarinnar stóð sig vel í aukahlutverki og náði samúð margra áhorfenda.

Gaman er að geta þess að reyndari leikarar á borð við Valgerði Sverrisdóttur, Guðna Ágústsson og Sif Friðleifs, hafa greinilega engu gleymt á stóra sviðinu og voru mjög sannfærandi í leik sínum.

 

Lesendur eru einnig minntir á fleiri frumsýningar á næstunni.  Mikið kapp hefur verið lagt á lokaæfingar Sjálfstæðisleikhússins á söngleiknum ESB eftir sama höfund og hippasöngleikinn Góðærið, sem fékk metaðsókn á sínum tíma. Veit ég að öllu verður tilkostað til þess að frumsýningin verði sem glæsilegust og minnistæðust og binda margir vonir um að þetta verk muni toppa Góðærið.

 

Þeir sem ekki hafa tryggt sér árskort í leikhús er bent á að hafa hraðar hendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband