Réttar vörur á réttum stöðum...

Þegar ég var lítill var hefðin sú að ég fór með mömmu og pabba í matvörubúð að kaupa mat. Bókabúðir seldu bækur, bensínstöðvarnar höfðu á boðstólnum hinar ýmsu vörur fyrir bílinn, sjoppur seldu nammi, dekkjaverkstæði þjónustuðu dekk, og byggingavöruverslanir seldu timbur og nagla. Málning var fáanleg í málningavöruverslunum og föt fengust í fatabúðum. Meira að segja reiðhjólaverslunin seldi reiðhjól.

Og man einhver eftir Laugaveginum að degi til? Laugavegurinn var samastaður kaupmannana. Þar var gaman að rölta búð úr búð til að versla einn hlut hér og annan þar. Þessar verslanir (og allar aðrar) lokuðu svo klukkan sex. Þá varð að bíða með að versla þar til daginn eftir.  Og sunnudagar voru frídagar. Líka jólin. Á aðfangadag var bara ein verslun, Vegamót úti á Seltjarnarnesi, sem var opin til klukkan fjögur.

Og meira að segja IKEA var lítil og þægileg verslun fyrir 20 þúsund fermetrum síðan.

Það hefur eitthvað klikkað síðan ég var lítill. Vingjarnlegi kaupmaðurinn á horninu er horfinn, og í staðinn komnir bólgrafnir unglingar sem svara: " Æji, er það ekki þanna, þú'eist?" eða "Spurðu á kassanum" þegar ég spyr hvar Korn-fleksið er þessa vikuna.

"Kaupmennirnir" er jakkafatamenn sem bruna milli hluthafafunda  á Range Rovernum sínum að plana næstu verslun, sem verður tvöfalt stærri en sú stærsta í dag, og selur ALLT!!!

Mér finnst erfitt að versla á þessum breyttu tímum. Það er búið að rugla öllu vöruvalinu. Núna kaupi ég frostlög á bílinn í Rúmfatalagernum og matinn minn á ESSO.  Við hjónin borðum skyndibita í IKEA, og verslum nýja 32” sjónvarpið í matvörubúðinni. Og það er öruggara að kaupa grænmetið á bensínstöðinni frekar en í stórmarkaðnum því þá rennur það ekki yfir síðasta söludag fyrr en ég kem heim. Og engin þessara verslana lokar á skynsamlegum tíma og sumar alls ekki. Það má heita heppni að fólk missi ekki af jólunum því það er ennþá í Hagkaup að skoða vetrardekk á vaxtalausum raðgreiðslum.

Og ef mér dytti í hug að labba út í búð?  Ekki séns. Allar búðirnar eru í Kópavogi, í einu og sama húsinu.  Og hvaða strætó skyldi ganga þangað?

Einu sinni var alveg sama í hvaða strætó ég ferðaðist. Ef ég sat nógu lengi í vagninum endaði ég í Mekka kaupmanna því allir vagnar gengu á Hlemm, sem liggur við Laugaveginn.

En núna heldur fólk að Hlemmur sé heima hjá Lalla Johns. Og heil kynslóð fer ekki á Laugaveginn nema á Menningarnótt. Og Menningar-NÓTT er að degi til.

Það er verið að gera okkur öll að neyslufíklum. Alls staðar er bara ein hugsun. Að fá okkur til að kaupa vörur. Er enginn að berjast fyrir þessu? Ég vil fá kaupmennina aftur á hornið, skikka verslanir til að selja það sem þeim ber að selja og dreifa þessu á marga kaupmenn. Það á að vera svolítið átak að versla. Hugsa og skipuleggja hvað, hvar og hvernig. Ekki elta tilboðsskiltin og borga í febrúar.

Er kannski öllum sama?


mbl.is 30-60% verðmunur á jólabókum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Frábær pistill og inilega sammála þér. Fæ að deila þessu víðar, ef þér er sama.

Heimir Tómasson, 8.12.2011 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband