29.6.2009 | 13:02
Undirheimar taka upp nýjar vinnureglur
Eftir giftusamlega björgun Ríkisins á bankakerfinu hafa forustumenn Undirheima ákveðið að taka upp vinnureglur útrásarbankanna. Með þessu fæst ekki aðeins ríkistryggður vinnufriður, heldur töluverð hagræðing við tekjuöflun og innheimtu, og talið að hagnaður fimmtíufaldist strax á fyrsta ársfjórðungi. Þar með er hægt að niðurgreiða erlendar fíkniefnakröfur mun hraðar, og vinna að enduruppbyggingu Undirheima. Vegna samdráttar í tækjaæði og bruðli almennings var áður talið að Undirheimar yrðu fyrir töluverðri tekjuskerðingu vegna verðhjöðnunar í innbrotum.
Dæmi um einfaldan þjófnað eftir nýjum vinnureglum:
Innbrotsþjófur brýst inn og stelur sjónvarpstæki metið á 200 þúsund krónur. Flutningur og geymslugjald reiknast ásamt dráttarvöxtum og innheimtuþóknunnar, og mánuði seinna kemur þjófurinn aftur með kröfu í DVD spilarann vegna þess að hann var sannarlega tengdur við hið horfna sjónvarpstæki. Mánuði síðar hefur gengið illa að selja hið stolna sjónvarpstæki og DVD spilara vegna mikils framboðs á markaði, og þess vegna kemur þjófurinn með reikning fyrir geymslugjaldi og tekur fjárnámi brauðristina og kaffikönnuna sem sannarega voru tengd við rafkerfi hússins ásamt hinu horfna sjónvarpstæki og DVD spilara.
Viku seinna sendir þjófurinn reikning fyrir kostnaði við símasölu og launum vegna sölu á sjónvarpi og brauðrist, og reikning fyrir viðgerð á kaffikönnu og loks fyrir tapi á sölu á DVD spilara og kaffikönnunni.
Þjófurinn reynir í framhaldi árangurslaust að innheimta kröfu ásamt innheimtukostnaði og sendir að því loknu til innheimtu hjá Handrukkara. Handrukkarar innheimta sófa, fartölvu, hljómflutningstæki, þvottavél og þurrkara. Eftir að hafa reynt árangurslust fjárnám úr veski skuldara, hefja þeir að því loknu aðför að aðstandendum, og innheimta iPod, fleiri fartölvur og fatnað, sem sannarlega var staddur á heimili skuldarans.
Loks á Handrukkarinn kröfu á skuldara vegna kostnaðar á innheimtu og uppboði haldtekinnar vöru, auk þess að innheimta tap sem verður vegna mismunar á viðmiðunarsöluverðmæti og uppboðsverði vörunnar, auk vaxta og innheimtukostnaðar.
Fjármálaráðgjafi Undirheima, telur brýnt að Ríkið skeri enn frekar niður til að tryggja að löggæsla sé af skornum skammti. Smátt letur tryggingafélaga og lágar bótafjárhæðir munu einnig tryggja að heimilin noti svo launin sín og sparnað til að versla ný heimilis- og afþreyingartæki, sem síðar má sækja með sömu leiðum.
Digurjón B. Járnason, Talsmaður undirheima, segist sannfærður um að fíkniefnaskuldir glæpamanna verði ekki fjárhagsleg byrði á íslensku þjóðarbúi í framtíðinni. Hann telur að eignir landsmanna dugi fyrir fíkniefnaskuldunum ef vel er að verki staðið við sölu þeirra.
Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Pælingar | Aukaflokkur: Fíflaskapur | Breytt s.d. kl. 14:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.